Ýmis fróðleikur

Það eru til óteljandi hliðar á sauðfjárbúskap. Hér er athyglinni beint að ýmsum atriði, þjóðsögum og þjóðtrú, uppfinningum og fleiru skrítnu og skemmtilegu.

Sauðaþjófar

Ef marka má þjóðsögur og munnmæli hefur sauðaþjófnaður verið einhver mesta synd sem menn gátu drýgt í gamla bændasamfélaginu.

Þjófurinn og tunglið

Einu sinni var sauðaþjófur sem settist niður á afviknum stað með feitt sauðalæri sem hann hafði stolið og ætlaði hann að snæða það í makindum. Tunglið skein skært og engin ský voru á lofti. Þjófurinn ávarpaði þá tunglið með þessum ósvífnisorðum og rétti um leið upp á móti því hnífinn með ketbita á oddinum.

Viltu, tungl,
þér á munn
þennan bita feitan?

Þá svaraði honum aftur rödd af himni:

Viltu, hvinn,
þér á kinn
þenna lykil heitan?

Í sama bili féll glóandi lykill úr háloftunum niður á kinn þjófsins og brenndi þar á hann brennimark. Sagt er að af þessu hafi sá siður verið tekinn upp sem algengur var á fyrri öldum að brennimerkja þjófa.

Jarmaðu nú Móri minn!

Í Gvendareyjum á Breiðafirði bjó lengi maður sem hét Þormóður. Hann var kraftaskáld og kunnáttumaður. Þormóður átti talsvert af fé og þar á meðal var mórauður forystusauður, sjö vetra. Móri hafði gengið á afrétti uppi á landi á hverju sumri og ætíð komið í fyrstu göngum. Þetta haust var gengið þrisvar eins og venja var til en ekki kom Móri í leitirnar.

Þormóður fann að ekki var allt með felldu um hvarf Móra og fór um haustið að messu að Staðarfelli. Þar spyr Þormóður hvort nokkur hafi orðið var við Móra og neita því allir. Þá kallaði einn maður: Honum hefur sjálfsagt verið stolið. Betur væri að allir þjófar hér væru flengdir og hengdir. Segir þá Þormóður stundarhátt: Jarmaðu nú Móri minn hvar sem þú ert!

Í sama bili kom feikilegur jarmur úr manni þeim sem mest hafði hallmælt þjófunum. Var eins og Móri ærðist og beljaði ofan í honum sem mest hann mætti. Varð maðurinn að gangast við því að hann væri sjálfur þjófurinn og hefði étið sviðin af Móra um morguninn.

Útilegumenn

Fyrrum var útilegumönnum oft kennt um ef fé heimtist illa af fjalli.

Fjalla-Eyvindur og Halla lágu forðum úti á Ströndum, m.a. í helli undir Svartfossi ofan við Fell í Kollafirði. Frægt var þegar Halldór Jakobsson, sýslumaður á Felli í Kollafirði, handtók Fjalla-Eyvind og missti síðan aftur. Eyvindur var svo duglegur að sýslumaður gat ekki stillt sig um að láta hann ganga að verkum með vinnufólkinu og auðvitað notaði hann tækifærið og strauk. Fyrir þetta missti Halldór embættið um tíma.

Haft var eftir Arnesi fjallaþjóf að útilegumenn yllu óskaplegum fjárhvörfum og aldrei meiri en eftir harða vetur. Þá gjörfelldu útilegumenn fé sitt og yrðu að bæta sér það upp með því að stela öðru í staðinn.

Ræninginn stórtæki

Í desember 1681 var ansi stórtækur sauðaþjófur á ferð á Melum í Hrútafirði. Þá var 50 kindum stolið af bóndanum þar, Jóni Auðunssyni. Sauðaþjófurinn kom víðar við og í sömu ferð rændi hann á fleiri bæjum í innanverðum Hrútafirði, þetta 10-12 sauðum á hverjum bæ.

Er Melabóndi saknaði fjárins safnaði hann liði og hélt til leitar suður á heiðar. Snjór hafði fallið og fundu leitarmenn slóð og drógu uppi reksturinn og náðu þjófnum í Vatnaflóa á Tvídægru, þá á leið í Surtshelli í Borgarfirði. Í rekstrinum voru 120 fjár og 5-6 hross undir klyfjum, allt stolið.

Útileguþjófur þessi hét Loftur Sigurðsson og hafði um nokkurt skeið legið úti á heiðum suður af Hrútafirði með konu sinni, hjákonu og fjórum börnum. Var hann færður lögmanninum á Reykhólum og höggvinn nokkru síðar.

Þrjár íslenskar uppfinningar

Hleypiklakkur

Það var ekki einfalt verk að koma heysátum upp á klyfbera og taka þær ofan, það var tveggja manna verk. Einn maður gat ekki sett upp sátu nema öðru megin í einu og þá snérist reiðingurinn út á hlið þegar maðurinn ætlaði að festa hinu megin. Að taka sáturnar af var líka óþægilegt nema fyrir tvo og það gat skapað vandamál þar sem fátt fólk var við störf. Oft mátti ekki sjá af nema einum unglingi til að fara með heylestina.

Snemma á 20. öld fundu menn upp á að búa til hleypiklakka. Þeir voru felldir ofan í klyfberana og voru þannig útbúnir að hver sem er gat losað baggana eða sáturnar af með því einu að kippa í spotta. Þetta snjallræði þekktist ekki neins staðar nema á Íslandi.

Orfhólkurinn

Orfhólkur er litli járnhólkurinn sem festir ljáinn og heldur honum við orfið. Í dag finnst öllum þessi litli hlutur vera sjálfsagður hluti af gömlu sláttuverkfærunum, en færri vita að það eru ekki nema 160 ár síðan byrjað var að brúka þennan einfalda hlut sem létti mönnum störfin.

Fram á miðja 19. öld notuðust menn við leðurólar sem voru bleyttar og síðan reyrðar utan um þjóið á ljánum og orfendann. Þegar ólin þornaði var ljárinn vel fastur en ef hún blotnaði aftur var voðinn vís og ljárinn gat losnað.

Ólarnar voru notaðar um alla Evrópu, en þegar uppfinningamaðurinn og presturinn Þórður Árnason í Landsveit fann upp orfhólkinn var þekkingin fljót í förum um land allt og leðurólarnar voru lagðar á hilluna.

Taðkvörnin

Seint á 19. öld fann maður að nafni Gísli Guðmundsson frá Ljótsstöðum í Skagafirði upp merkilegt tæki, sem síðar var notað um allt land. Þetta verkfæri kallast taðkvörn. Gísli fékk hugmyndina úr grein um ostagerð sem birtist í tímaritinu Andvara, en í henni var mynd af ostakvörn.

Taðkvörnin var notuð til að mala niður taðið áður en því var dreift á túnin. Áður höfðu menn notað kláru til að lemja taðið og merja í sundur eða jafnvel berar hendurnar og mulið skítinn niður á þúfnakollum. Taðkvörnin var því himnasending fyrir þreytta vinnumenn.

Kaflarnir í fróðleikskistunni: