Smölun og leitir

Hér er fjallað um smölun, fjárleitir að hausti og réttir. Haustin og vorin eru uppáhaldstími margra, á vorin er auðvitað sauðburður, en á haustin er fénu smalað heim í hús í leitum og smalamennskum og oft standa menn í fjárragi langt fram eftir hausti. Smalamennskur, réttir og sláturtíðin sem fylgir eru nokkurs konar uppskerutími bændanna auk þess sem þeir þurfa að vanda til verks þegar velja á líflömbin.

Göngur og réttir

Kveður í runni, kvakar í mó
kvikur þrastasöngur.
Eins mig fýsir alltaf þó
aftur að fara í göngur.
Jónas Hallgrímsson

Á hverju hausti þurfa allir sem eiga fé að koma því til byggða ofan af fjöllum. Þetta er verk sem allir fjárbændur verða að vinna og oft þurfa þeir að safna liði til að verkið takist. Í hverri sveit eru skipulagðar göngur og leitir að sauðfé og gefinn út leitarseðill sem segir til um hversu marga menn hvert heimili á að leggja fram til að smala ákveðin svæði.

Yfir göngum og réttum hefur ætíð hvílt ævintýraljómi. Unga fólkið horfir á með glampa í augum þegar smalarnir leggja af stað í göngurnar og ekki minnkar ákafinn þegar komið er í réttir.

Göngunum stjórnar fjallkóngur eða gangnaforingi. Leitarstjóri heitir hann á Ströndum, en þar tekur smalamennskan yfirleitt aldrei meira en einn dag.Fjallkóngurinn ræður hverjir smala ákveðin svæði og stjórnar aðgerðum, bæði þegar vel gengur, þegar óveður skellur á og ef fólk veikist, slasast eða villist. Eins ef slær í bardaga við útilegumenn eða tröll. Þá er það fjallkóngurinn sem ræður hvað gera skal.

Árangur erfiðisins fer að miklu leyti eftir veðri. Þegar slæmt veður gerir á afréttum geta göngurnar orðið erfiðar. Þar sem leitarmenn þurfa að hafa náttstað gera þeir ýmislegt til að létta lundina. Í húsaskjólinu er sungið, kveðið, ort og sagðar sögur.

Göngurnar fara fram í september og október. Áður var aðeins leitað einu sinni, en í dag eru tvær skipulagðar göngur og stundum sú þriðja sem heitir eftirleit. Eftirleitirnar gátu verið hættulegar ef veður voru válynd.

Fyrr á öldum var húsaskjól leitarmanna á heiðum uppi bágborið, kofar eða tjöld, og menn lágu jafnvel úti. Í dag er aðbúnaðurinn orðinn nokkuð góður, á öllum afréttum eru traustir gangnaskálar og farartækin eru ekki einungis hestar, því einnig eru flugvélar, þyrlur, snjósleðar og jeppar notaðir til leita. Tæknivæðingin sér líka til þess að ekkert fé ætti að verða eftir á fjalli.

Á réttarveggnum

Fjallkóngur í fimmtán ár,
flaugst ég á við seggi,
myndugur og mektarhár
mölvaði réttarveggi.

Þegar féð er komið til byggða er víða siður að hvíla það í sólarhring áður en réttað er. Í réttunum tekur réttarstjóri við af fjallkónginum og hefur öll völd í hendi sér. Hann er oft markaglöggur með afbrigðum og hefur undir höndum allar þær markaskrár sem nauð­synlegar eru. Til réttarstjórans er leitað með öll vafamál og vafamörk.

Á réttardegi er féð rekið inn í almenning og þá fara leikar að æsast. Allir sem vettlingi geta valdið reyna af kappi að finna kind frá sínu heimili og koma henni í rétt hólf. Allt í kringum almenninginn eru hlið inn í hólf sem tilheyra einstökum bæjum eða sveitarhlutum. Þessi hólf eru kölluð dilkar.

Það má segja að réttir séu eins og samkomuhús undir beru lofti. Gelt í hundum og jarm í kindum blandast við vélahljóð, hróp og köll og stundum söng mannfólksins. Sumir mæta með pela og aðrir með neftóbaksdósir. Á síðustu árum er oft fleira fólk en fé í réttunum.

Smalinn

Fyrr á tímum voru smalar miklu mikilvægari stétt en síðar varð, þó erfiðið hafi sjálfsagt ekki alltaf verið metið að verðleikum.

Á meðan ær voru enn mjólkaðar í kvíum kvölds og morgna þurfti smalinn að fylgja þeim allan daginn. Það þurfti að sitja yfir þeim á nóttunni allt sumarið fram að slætti. Á haustin smöluðu menn og að vetrarlagi var vetrar- og fjörubeit mikilvæg og eins þurfti að brynna ánum. Nú þarf einungis að smala fé heim til bæja á haustin.

Smalagollur og smalabúsreið

Góðir smalar hjá góðum húsbændum fengu að sjálfsögðu verðlaun fyrir vel unna vinnu. Stundum fengu þeir lamb og oft var þeim gefinn gollurinn úr vænstu kindinni sem skorin var um haustið. Gollurinn var gollurshúsið úr kindinni úttroðið af kjöti og mör, og soðið í mauk. Menn yrðu líklega ekki ánægðir með þessi laun í dag, en smalar fyrri tíma voru ofsakátir með gollinn sinn.

Miklu skipti að smalinn væri duglegur og úrræðagóður. Að sögn Eggerts skálds Ólafssonar átti hann einnig að vera þéttvaxinn, kvikur á fæti og snar í snúningum, glaðlyndur og fjörugur, hvort sem veður var vont eða gott. Smalinn á að ganga með staf í hendi og styðjast fram á hann með brjósti eða höku þegar hann er að tala við þá er mæta honum. Versti óvinur smalans er þokan en besti vinurinn er hundurinn hans.

Smalabúsreið var fyrrum frídagur vinnuhjúa, sunnudaginn í 15. viku sumars – um verslunarmannahelgina. Þá fékk vinnufólk hest hjá húsbændum sínum, fór um nálægar sveitir í flokkum, heimsótti bændur og heimtaði veitingar og sparaði ekki við sig í mataráti og drykk. Þessi siður var víðast hvar illa liðinn, bæði af bændum og kirkjunnar mönnum, og mikið var reynt að banna smalabúsreiðina.

Fjárhundar

Uppruni hundanna

Sagan segir að þegar frelsarinn lifði, hafi hann eitt sinn komið þar sem menn voru að reka fjárhóp. Féð var latrækt og gekk þeim bæði seint og illa. Þá tók hann grasvöndul og sneri milli handa sér og gerði úr honum hund, hjarðsveinunum til hjálpar. Vegna þessa liggja hundar ávallt hringaðir þegar þeir sofa.

Hundar hafa verið notaðir til fjárreksturs frá landnámsöld og fer mörgum sögum af færni þeirra. Sagt er að bestu hunda hafi verið hægt að senda eina til fjalla og stjórna þeim af bæjarhlaðinu. Eins er í frásögur fært að áræðnir hundar hafi leitt smala og fjárhóp heim að bæ í óveðri og byl.

Í göngum gilti sú regla að hvern þann sem ekki hafði með sér hund mátti reka heim aftur. Þessi regla sýnir einna best hversu mikilvægur hundurinn var í fyrri tíð.

Áður fyrr voru yfirleitt margir hundar á hverjum bæ. Lengi var lítið hugað að hreinræktun, flestir hundar voru blendingar. Þetta hefur breyst á síðustu árum og nú er nokkuð stór stofn til af hreinræktuðum íslenskum hundum.

Þjálfun fjárhunda hefur hins vegar farið aftur á síðustu áratugum, enda ekki líkt því eins mikið að gera fyrir þá og áður. Það er miður, því góður hundur getur sparað mikinn tíma.

Smalahundur valinn

Samkvæmt Jónasi frá Hrafnagili á að velja þann hvolp sem fyrst fæðist fyrir smalahund.

Það var líka algengt fyrrum að smalar sæktust eftir að eiga hvíta eða ljósleita hunda því þeir sjást betur þegar þarf að senda þá frá sér.

Kaflarnir í fróðleikskistunni: