Fjárhús

Í þessu fróðleikshorni er að finna ýmsan almennan fróðleik um fjárhús á Íslandi fyrr og síðar. Fyrr á tímum var hreint ekki sjálfsagt mál að kindur ættu heimili og athvarf í vel þrifnum híbýlum, hvað þá að þær gengu um á járn- eða timburgrindum.

Fjárhús að fornu og nýju

Eflaust eiga margir erfitt með að sjá fyrir sér sauðfjárbónda sem á ekkert fjárhús. Í dag myndi slíkt vera saga til næsta bæjar og ólíklegt að yfirvöld létu það átölulaust. Þannig var því engu að síður farið um landnáms­mennina okkar, en þeir létu fé sitt ganga laust og gerðu lítið af því að byggja fjárhús. Það var oftast í góðu lagi enda var Ísland þá gróðursælla.

Norðlenskt veðurfar réði því einmitt að farið var að byggja fjárhús á norðanverðu Íslandi, mun fyrr heldur en á sunnanverðu landinu, en þar gekk fé laust langt fram eftir 18. öld. Árið 1776 gáfu stjórnvöld út tilskipun um fjárrækt. Í þessari tilskipun var forskrift um fjárhúsabyggingar og sektir voru lagðar á bændur ef þeir fóru ekki eftir tilskipuninni. Þeir létu sér þó fátt um finnast og fóru sér hægt við alla uppbyggingu.

Eftir miðja 19.öld var fjárhúsakostur landsmanna víðast hvar farinn að batna. Mörg húsanna voru þó byggð af vanefnum, úr torfi og grjóti, því bændastétt þess tíma hafði ekki efni á dýru timbri. Þá voru fjárhúsin mjög mismunandi að gerð eftir landshlutum.

Á Suðurlandi voru fjárhúsin í raun beitarhús, dreifð um hagann og frekar lítil. Þau voru líka erfiðari í hirðingu því heyið þurfti að bera frá beitarhúsum sem oft voru langt í burtu. Þá voru sunnlensku fjárhúsin með lága veggi og mjög hátt og bratt þak vegna rigninganna. Annars staðar á landinu á þessum tíma voru húsin færri og stærri. Þar var annað lag á byggingunum, veggirnir voru mjög háir og ekki hlaðnir úr torfi heldur eintómu grjóti. Menn trúðu því nefnilega að ef andi fjárins næði að leika um torfveggina myndu þeir fljótlega grotna og fúna niður. Í þessum húsum var öll hirðing auðveldari, enda voru menn byrjaðir að byggja hlöðu við húsin.

Eins og allt annað hefur byggingalistin þróast og breyst og fjárhúsin með. Í dag eru fjárhús og hlöður úr mun endingarbetra efni en áður, steinsteypu, timbri og bárujárni. Þá eru flest húsin rúmgóð og mikil áhersla er lögð á að vel fari um kindurnar og fóðrið.

Ólík hús og híbýli

Fyrri tíma fjárhús voru oft ekki burðugar byggingar. Í mörgum þeirra voru gluggar fáir eða engir. Vegna þess var oft mikið myrkur og því voru draugar býsna algengir í fjár­húsum landans. Einnig snjóaði oft inn í þau og troðningurinn og þrengslin voru oft mikil. Í dag eru flest fjárhús svipuð að gerð og lögun, en á þessum tíma voru til nokkrar útgáfur af fjárhúsum.

Hellar voru stundum notaðir til að geyma fé eða hey í. Þessi aðferð var aðallega brúkuð sunnanlands, sennilega er fleiri hella að finna þar. Sums staðar bjuggu bændur sér til hella.

Beitarhús voru í raun lítil fjárhús sem voru stundum langt frá bæjarhúsum. Tilgangurinn með því að hafa þau jafn dreifð og raun bar vitni var sá að jafna álagið á tún bóndans yfir veturinn – að kindurnar væru ekki allar að kroppa á sama stað.

Fjárborgir voru kringlótt byrgi, hlaðnar úr grjóti eða torfi. Þær voru ætlaðar fé í hríðum og illviðrum og þess vegna stóðu þær oft langt frá bæjum. Fjárborgir voru þannig gerðar að þegar búið var að hlaða veggina var farið að draga þá saman þar til hleðslan var nærri lokuð í toppinn.Þar skildu menn eftir lítið gat til að lofta út. Í fjárborgunum voru engar jötur og dyrnar voru svo lágar að aðeins var gengt fyrir kindur inn um þær.

Þjóðtrú tengd fjárhúsum

Því var trúað að ef margar kindur ásæktu eina inni í húsi þá myndi hún fljótlega drepast.

Margir trúðu því að ef kind jarmaði í húsi með heytugguna uppi í sér, þá væri einhver kindin í húsunum skammlíf.

Til varnar bráðapest þótti óyggjandi vörn að láta róðukross úr tré undir taðhnaus fyrir innan þröskuldinn í fjárhúsinu.

Ráðagóðir Vestfirðingar

Helsta vandamál í fjárhúsum fyrri tíma var óþrifnaður og bleyta. Kindurnar tróðu á sínum eigin úrgangi sem safnaðist saman í þykka skán, sem hét tað. Þegar fjárhúsin voru þurr var taðið þurrt, en ef húsin láku eða blotnuðu var voðinn vís. Þá varð taðið að forarsvaði sem klesstist á kindina og eyðilagði þar með hitaeinangrunina sem ullin veitir.

Vestfirðingar, sem beittu fé sínu mikið í fjöru á veturna fundu góð ráð við bleytunni sem því fylgdi. Annað var að bera sand í garðann sem dró í sig bleytuna úr taðinu. Hitt ráðið, sem reyndist enn betra, var að leggja rimlagrindur úr tré í garðann svo úrgangurinn fór þar niður á milli, grindin var svo tekin upp og færð til á annan stað ofan á taðið og þá leið nokkur tími þar til fylltist milli rimlana aftur.

Þessi uppfinning hefur síðan verið útfærð á ýmsa vegu.

Kaflarnir í fróðleikskistunni: