Sauðfjárrækt og búskapur

Það eru í rauninni til óteljandi hliðar á sauðfjárbúskap. Sauðféð sjálft, störf bóndans, lífið í sveitinni, árstíðabundin verkefni og síðast en ekki síst sýn hverrar og einnar manneskju á sauðkindina og búskapinn. Þannig er endalaust hægt að sjá nýja vinkla á sauðfjárbúskapnum.

Sauðfjárbúskapur á Ströndum

Á Ströndum eru fén svo feit
að fæstir síður eta,
þeir sem eru úr annarri sveit,
en innfæddir það geta.
[Úr búnaðarbálki Eggerts Ólafssonar]

Líf og afkoma bænda á Ströndum í gegnum aldirnar hefur að miklu leyti byggst á sauðfjárbúskap. Hlunnindi og árstíðabundin sjósókn hafa líka skipt verulegu máli og meira eftir því sem norðar dregur í sýslunni.

Fé af Ströndum hefur lengi verið með því vænsta og best gerða á landinu. Mikil áhersla á ræktunarstarf og góð beitarlönd í héraðinu hafa skilað árangri sem Strandamenn geta verið stoltir af.

Líflambasala úr Strandasýslu hefur verið talsverð á síðastliðnum árum og þau lömb sem seld hafa verið til niðurskurðar­svæða hafa reynst mjög vel. Strandir eru eitt af fáum svæðum á landinu sem líflambasala er leyfð á, en hér eru ekki landlægir hættulegir smitsjúkdómar í sauðfé. Þá hafa hrútar af svæðinu einnig verið eftirsóttir af sæðingastöðvum.

Lambakjöt af Ströndum er eitt það allra besta í heiminum. Fallþungi dilka er óvíða meiri en í Strandasýslu og vöðvafylling góð. Strandadilkar hafa komið vel út úr flokkun á kjöti eftir að hún var tekin upp. Kjötið er meyrt og safaríkt – gott á grillið, í ofninn, á pönnuna og í pottinn.

Framtíð sauðfjárbúskapar

Sauðfjárbúskapur á í vök að verjast á Ströndum eins og víðast annars staðar. Fækkun bænda og fjárbúa hefur verið mikil síðustu ár og meðalaldur sveitafólksins er orðinn hærri en góðu hófi gegnir.

Lítið er um að ungt fólk sé í þeim hugleiðingum að gera sauðfjárbúskap að ævistarfinu. Sem betur fer gerist það þó öðru hverju, enda er margt við búskapinn sem heillar. Bændur ráða sér sjálfir og hver og einn þeirra er á vissan hátt kóngur í ríki sínu.

Það mikla og góða starf sem hefur verið unnið við sauðfjárræktun og kynbætur gefur líka góð fyrirheit um skemmtilega framtíð fyrir þá sem leggja sauðfjárbúskapinn fyrir sig. Það sem skiptir þó mestu fyrir bændur á Ströndum eins og aðra bændur er að gæði afurðanna haldist, vöruþróun sé öflug og landsmenn haldi áfram að borða blessað lambakjötið.

Sauðfjárræktarfélög

Eftir að mæðiveikin og fleiri sjúkdómar höfðu herjað á landið rétt um miðja síðustu öld, fóru bændur sem skipt höfðu um fé að huga að því að bæta fjárstofninn. Nýi fjárhópurinn var oft sundurleitur á að líta, enda var féð fengið víða að og af mörgum bæjum.Í framhaldi af þessu var um allt land stofnað til félagsskapar um fjárræktun.

Sauðfjárræktarfélögin hafa komið því til leiðar að eftirlit og skráning á sauðfé er í mun betra horfi en áður. Kynbætur á vegum félaganna hafa reynst mikilvægar fyrir búskapinn.

Hrútasýning í Árneshreppi

Sauðfjárrækt í Tungusveit

Gott dæmi um öflugt fjárræktarfélag er Sauðfjárræktarfélag Kirkjubólshrepps. Það var stofnað 16. desember 1951 í skólahúsinu á Heydalsá. Stofnfélagar voru 13 sauðfjáreigendur í hreppnum. Fyrsta stjórn félagsins var kosin á fundinum, en hana skipuðu Karl Aðalsteinsson á Smáhömrum formaður, Grímur Benediktsson á Kirkjubóli ritari og Jón B. Jónsson á Geststöðum gjaldkeri.

Í fyrstu voru eingöngu skráðar ær sem valdar voru af stjórn félagsins, en síðar var allt fé skráð. Félagið stóð fyrir hrútakaupum, en hrútar úr Kirkjubólshreppi hafa löngum verið taldir með þeim betri á landinu. Keyptir voru ungir og efnilegir hrútar sem höfðu fengið góða dóma á sýningum og þeir notaðir af öllum félagsmönnum. Sæðingar á vegum félagsins hófust á árunum 1960 og 1961.

Sauðfjárræktarfélagið sendi menn á námskeið í vélrúningi 1962 og keypti síðan eina af þeim vélum sem kennt var á. Hún var notuð af félagsmönnum í mörg ár. Árið 1966 var keypt fjárvigt. Mönnum þótti það mikil breyting að geta látið kindurnar renna í gegnum vigt í stað þess að þurfa að lyfta þeim upp á krók. Félagið átti mörg önnur verkfæri sem félagsmenn nýttu til bústarfanna. Lög Sauðfjárræktarfélags Kirkjubólshrepps gefa skýra mynd af tilgangi og starfsemi sauðfjárræktarfélaga:

1.  gr.
Félagið heitir Sauðfjárræktarfélag Kirkjubólshrepps og nær félagssvæðið yfir Kirkjubólshrepp.

2. gr.
Tilgangur félagsins er sá að kynbæta sauðfé félagsmanna með tilliti til bættra afurða, hreysti og útlits.

3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná:
a) Með skipulögðu úrvali úr fjárstofni þeim, er félagsmenn eiga er félagið er stofnað.
b) Með því að finna erfðaeðli einstaklinga með glöggum ættartölum, afurðaskýrslum og afkvæmarannsóknum.
c) Með því að kaupa kynbótafé til þess að fá í fé félagsmanna æskilega eiginleika sem vantar í það.
d) Með því að festa kostina í kyni og vinna að útrýmingu duldra galla með skyldleikarækt eftir að búið er að fá féð útlitsgott og afurðamikið með úrvali og íblöndun aðkeypts kynbótafjár.

Kaflarnir í fróðleikskistunni: