Frægar kindur

Hér gefur að líta örfáar stuttar umfjallanir um sauðfé sem hefur orðið nafntogað með einum eða öðrum hætti í gegnum tíðina.

Herdísarvíkur-Surtla

Ein frægasta ær síðari tíma er Herdísarvíkur-Surtla, sem var í eigu Hlínar Johnson frá Herdísarvík á Reykjanesi. Surtla var svört, eins og nafnið gefur til kynna, og hafði einstakt lag á að gera menn sárfætta og reiða.

Í fjárskiptum vegna mæðiveikinnar haustið 1951 var svæðið frá Þjórsá að Hvalfirði hreinsað af fé, fyrir utan eina svarta kind og lamb hennar sem náðust ekki. Eftir áramótin náðist lambið þegar það örmagnaðist í einum eltingaleiknum en Surtla slapp ávallt burt. Hún sást nokkrum sinnum en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fulltrúa fjárskiptayfirvalda virtist engin leið að ná henni, hún ýmist stakk menn af í klettum sem voru öðrum ófærir eða þá að hún fannst ekki þegar til átti að taka.

Haustið 1952 gripu yfirvöld til örþrifaráða. Lagt var fé til höfuðs Surtlu. Hver sem næði skepnunni, dauðri eða lifandi fengi 2000 krónur í verðlaun. Eftir langan eltingaleik tveggja leitarhópa laugardaginn 30. ágúst féll Surtla fyrir byssuskoti, en þá hafði hún stokkið niður klettahamar sem var ófær öllum venjulegum skepnum. Surtla var felld í þriðja skoti og var í þremur reifum. Höfði hennar var skilað inn á skrifstofu sauðfjárveikivarna og vígalauna krafist. Aðalfyrirsögnin á forsíðu Tímans 2. sept. 1952 hljómaði þannig: Surtla lögð að velli í Herdísarvíkurfjalli á laugardagskvöld.

Ekki ríkti almenn ánægja með fall Surtlu því mörgum fannst að kindin ætti skilið að fá að lifa lengur, vegna þrautseigju hennar og harðskeytni, auk þess sem greinilegt var að hún þjáðist ekki af mæðiveiki. Fjölmargir skrifuðu greinar í blöð þar sem Surtlu var minnst auk þess sem vísur og ljóð voru ort um hana og endalok ævi hennar, en í þeim flestum fengu vígamennirnir bágt fyrir verkið. Það er greinilegt að kindin hefur orðið mörgum táknmynd frelsis og áræðni hennar vakti þjóðarathygli. Höfuð Surtlu er í dag í eigu Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis og hangir uppi á Rannsóknarstöðinni að Keldum.

Heimalningurinn Sníkja

Fjölmargar sagnir eru til um trygglyndi ýmissa dýra við eigendur og uppalendur sína. Fáar þeirra fjalla hins vegar um sauðfé, en ein slík er þó sagan af Sníkju frá Kjörseyri í Hrútafirði sem var Strandaær í húð og ull. Seint á 19. öld var kona að nafni Björg til heimilis á Kjörseyri. Hún missti kind. en gimbrin hennar gekk laus í túninu. Björg dekraði og nærði heimalninginn á brauði, mjólk og smjöri yfir sumarið. Eftir fráfærur voru öll lömbin rekin á fjall ásamt gimbrinni.

Haustið eftir var Björg á gangi að næsta bæ og mætti stúlku með kindahóp. Engum togum skipti að eitt lambið hljóp beint til hennar og flaðraði upp um hana eins og hundur. Þarna var gimbrin hennar komin og hafði hún dafnað vel yfir sumarið.

Gimbrin sem fékk nafnið Sníkja var látin lifa og fékk yfir veturinn brauð og alls kyns góðgæti ásamt heyinu. Vorið eftir var hún síðan rekin á fjall.

Haustið eftir þegar Sníkja kom af fjalli var Björg ekki heima og kindin gaf sig ekki mikið að fólki. Skömmu síðar var verið að reka féð heim. Þá var Björg komin og langaði að hitta vinkonu sína, svo hún kallaði til fjármannsins úr nokkurri fjarlægð: Er kindin mín þarna?

Björg hafði varla sleppt orðinu þegar hin trygglynda Sníkja kom á harðahlaupum og flaðraði upp um eiganda sinn glöð í bragði.

Þoka frá Smyrlabjörgum

Á Smyrlabjörgum í Suðursveit er rekið myndarfjárbú. Þar kom í heiminn árið 1950 grá gimbur sem gefið var nafnið Þoka. Sjálfsagt hefur fáa órað fyrir því að þarna væri á ferðinni kind sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á fjárrækt í landinu.

Þoka var gæðakind, með eindæmum frjósöm og varð nokkrum sinnum þrílembd. Einn sonur hennar, sem nefndur var Tossi, var seldur að bænum Borgarhöfn. Þar jókst frjósemi ánna svo um munaði og dætur Tossa voru oftar en ekki þrí- eða fjórlembdar.

Gríðarleg fjölgun varð síðan á þessum stofni þegar dætur hrútsins Anga komu til sögunnar. Angi var dótturdótturdótturdóttursonur Þoku.

Angi var lengi notaður og eignaðist stóran hóp ofur­frjósamra kinda. Þessum einstæða eiginleika Þoku og afkomenda hennar hefur verið dreift um allt landið með sæðingum og einnig til annarra landa.

Nokkrir þekktir hrútar

Hrúturinn Hösmagi

Haft er fyrir satt að þegar Grettir sterki Ásmundarson, Illugi bróðir hans og þrællinn Glaumur höfðu verið 2 ár í Drangey höfðu þeir skorið flest allt sauðfé sem þar var. Einn hrútur var þó látinn lifa, hösmögóttur að lit og hyrndur mjög. Var hann spakur og elti þá um eyjuna og á kvöldin neri hann hornum sínum við hurð skálans.

Hösmagi átti óbeinan þátt í dauða Grettis, því þeir bræður héldu að hrúturinn væri að berja húsið utan, þegar óvinirnir voru komnir upp á eyjuna og voru að basla við að brjóta upp hurðina. Voru þeir því seinni til varna.

Svínavatns-Svartur

Einn frægra forystusauða er Svínavatns-Svartur, mósvartur sauður sem var fæddur 1875. Hann bjargaði stórum hópi leitarmanna úr stórhríð haustið 1884, þá níu vetra.

Hann gekk klukkutímum saman fyrir framan fjárhópinn og leitarflokkinn á móti hríðinni, en sneri við af og til þegar klakabrynjan framan í honum varð svo þykk að hann sá ekki til. Leitarmenn brutu brynjuna af og Svartur rölti fram fyrir hópinn aftur og leiddi hann í öruggt skjól.

Svartur var mósvartur að lit, ullarprúður með mikinn þelbrúsk í enni og þykkt vangaskegg. Hann var rífur á vöxt, krapphyrndur, mikilleitur og ófríður. Fas, svipmót og augnabragð bar með sér vitsmuni, rannsakandi og rólega skapgerð. Svartur var afburða forystusauður og vitskepna.

Svínavatns-Svartur lést háaldraður og fannst mönnum mikill sjónarsviptir að honum.

Hulduhrúturinn

Ef marka má þjóðsögur eru mislitar kindur komnar af hulduhrúti. Sá hrússi var bíldóttur og glæsilegur á velli. Hann kom að Náttfaravíkum í Þingeyjarsýslu þegar fengitími stóð sem hæst. Hrússi gaf sig að ám bóndans og um vorið gerðust þau undur að ærnar eignuðust mislit lömb. Fram að því hafði allt sauðfé hér á landi verið einlitt.

Bónda brá í brún, en hafði þó rænu á því að gefa litaafbrigðunum þau nöfn sem þekkjast enn í dag. Þetta fé, sem síðar dreifðist um allt land, reyndist einnig vera harðgerðara og með meira vit í kollinum en fólk átti að venjast. Þess vegna var það síðar kallað forystufé.

Kaflarnir í fróðleikskistunni: