Ull og ullarvinnsla
Ullin af sauðkindinni er ein dýrmætasta afurðin. Hún er einstaklega einangrandi og hlý og því var hún og er enn í dag mikið notuð í flíkur, t.d. ullarpeysur, sokka, vettlinga og húfur.
Rúningur
Ullin af kindinni heitir einu nafni reifi. Ullin skiptist í tvær gerðir. Yst á gærunni er ullin löng og fremur gróf, það er kallað tog. Togið var kembt í togkömbum sem voru frekar grófir. Neðar í reyfinu er ullin hins vegar fíngerð og mjúk. Hún er kölluð þel. Áður fyrr var fé rúið með höndum, þá var reifið reytt eða rifið af kindinni. Vasahnífar og handklippur úr járni voru síðan lengi notuð, en nú er fé klippt með vélklippum.
Sú breyting hefur einnig orðið að forðum var féð rúið í júnímánuði. Þá var það rekið heim í stekk og rúið undir beru lofti. Nú rýja bændur fé sitt inni í húsum um veturinn.
Utan úr heimi berast þau tíðindi síðan nýjust að búið sé að finna upp lyf sem leysir rúninginn af hólmi. Losnar þá ullin af kindunum á tilskyldum tíma án þess að mannshöndin komi þar nærri svo neinu nemi.
Ullarþvottur
Þegar búið var að rýja féð var ullin hrist og síðan þvegin. Áður fyrr var hún þvegin upp úr vatni og keytu, sem er þvag úr fólki sem safnað var saman úr koppunum í þessum tilgangi.
Ullin var þvegin við vatn eða læk þar sem stór pottur með keytunni í var á hlóðum. Ullinni var troðið ofan í pottinn og henni þvælt fram og aftur með priki. Síðan var hún færð upp úr pottinum á grind og látið renna af henni. Þá var ullin skoluð í hreinu vatni og að því loknu borin á þurrkvöll þar sem hún var breidd til þerris. Þegar ullin var orðin þurr var tekið af henni það sem átti að nota til heimilis og afgangurinn sendur í kaupstaðinn.
Meðan ullarvinna á heimilum skipti enn umtalsverðu máli var betri hlutinn af ullinni jafnan notaður heima, en sá lakari seldur. Nú er öll ull sett í poka heima á bæjum og keypt þannig af bændum eftir að hún hefur verið skoðuð og metin. Ullin er síðan þvegin í þvottavél og þurrkuð í þurrkara í ullarþvottastöðvum.
Ullarvinnsla
Ull kindarinnar skiptist í tvær gerðir. Yst á gærunni er ullin löng og fremur gróf, það er kallað tog. Togið var kembt í togkömbum sem voru frekar grófir. Togþráðurinn var sterkur, háll og gljáandi og var mest notaður til að sauma. Hann var notaður í vefnað, útsaum og stundum var gert úr honum silunganet.
Neðar í reyfinu er ullin hins vegar fíngerð og mjúk. Hún er kölluð þel. Hægt var að spinna mjög fínan þráð úr þelinu. Þelþráðurinn var notaður til að prjóna úr allskyns flíkur, en einnig var hann notaður í hyrnur, sjöl og dúka.
Vinnslan
Fyrst var ullin táin, en þá var hún greidd í sundur og jöfnuð með fingrunum og síðan kembd í grófum kömbum. Þegar greiddist úr ullinni í kömbunum var ullin dregin úr þeim í lengju sem kölluð var lopi. Þetta hét að lyppa. Þangað til lopinn var spunninn og búið til úr honum band var hann geymdur í rimlakassa sem hét lár.
Þegar búið var að spinna lopann í rokki og gera þar með úr honum band var tekið til við að prjóna eða vefa bandið. Til að flíkin eða voðin yrði þétt í sér, skjólgóð og entist betur þurfti að þæfa hana. Það sem átti að þæfa var þvegið upp úr keytu, undið og svo hófst þæfingin. Sokkar og vettlingar voru þæfðir í höndum en peysur, pils og brækur voru þæfð í trogum. Vaðmálsvoð var þæfð undir fótum, en stundum þæfðu tveir menn vaðmál á milli sín í tunnu sem lá á hliðinni og var opin í báða enda með því að spyrna voðinni á milli sín inni í tunnunni.
Unnið myrkranna á milli
Það þykir ágætis afþreying í dag að prjóna, en þannig var það ekki áður fyrr. Þá var prjónavinnan skyldustarf sem flestir á heimilinu þurftu að vinna við.
Samkvæmt Íslenskum þjóðháttum var kappið mest fyrir jólin. Þá fékk fólk oft ekki nema hálfan svefn, og vökurnar stóðu fram á morgun. Karlar og konur prjónuðu hvað í kapp við annað. Þá segir einnig í bókinni að karlmennirnir hafi tekið með sér prjónana í fjárhúsin og jafnvel prjónað þegar þeir gengu á milli þeirra þegar veður leyfði!
Kaflarnir í fróðleikskistunni: