Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Vetrarverkin

Segja má að hin eiginlegu vetrarverk hefjist eftir að bændur hafa tekið fé sitt á hús síðla hausts. Gefa þarf kindunum hey tvisvar á dag þegar þær eru í fjárhúsunum um veturinn; um morguninn og seinnipart dags. Í desember tekur fengitíminn við – tími hrútanna og sæðingamanna nútímans til að koma lömbum í kindurnar. Í gamla daga voru ullarvinna og smíðar líka stór hluti af vetrarverkunum.

Áður fyrr voru vetrarverkin utandyra mönnum oft erfið því vetur á Íslandi geta verið geysiharðir og ekki er sjálfgefið að alltaf sé til nóg af heyforða. Sauðfé á Íslandi var af þessum sökum oft haldið á beit langt fram eftir vetri. Margir smalar og bændur hafa þá lent í vandræðum við að ná aftur í féð og einhverjir orðið úti. Hungrið hefur líka án efa svorfið að heimilisfólki í verstu vetrunum.

Vetrarverk fyrr á öldum

Bændafólk fyrri tíma hafði næg verkefni þegar veturinn gekk í garð. Fjárhirðingin tók mikinn tíma og ullarvinnslan fór að mestu leyti fram yfir vetrartímann. Konurnar prjónuðu og ófu og karlarnir smíðuðu tréílát og verkfæri úr rekaviðnum – meisa, taðklárur, klyfbera, hagldir og spóna.

Í gegnum tíðina hefur sauðfé ekki farið varhluta af því að veturnir á Íslandi geta verið geysilega harðir. Fátæktin hjálpaði ekki til við vetrarhirðinguna og stundum urðu harðindin yfirgengileg eins og gömul vísa af Ströndum um einmánuðinn sýnir:

Einmánuður illsku hafði nóga.
Af fátækt margur fraus í hel
fjölda þeirra ég ekki tel.

Margir áttu erfitt með að afla nægilegs vetrarforða og fé var haldið hart að beit á veturna. Það þótti eðlilegt langt fram á 19. öld að gefa kindum hvorki vott né þurrt fyrr en um eða eftir jól. Kindunum var beitt úti hvernig sem viðraði og ef mikil fönn var mokuðu menn snjó og brutu klaka ofan af grasinu.

Harðindi og skepnufellir

Gamall húsgangur frá 17. öld lýsir vel því ástandi sem skapast gat í harðindum fyrri alda:

Níu á ég börn og nítján kýr,
nær fimm hundruð sauði,
sex og tuttugu söðladýr,
svo er nú varið auði.

Þetta var um haustið. Eitthvað hefur svo hallað undan fæti yfir veturinn því um vorið samdi skáldið vísuna upp á nýtt:

Níu á ég börn og níu kýr,
nær fimmtíu sauði,
sex eru eftir söðladýr,
svo er nú komið auði.

Afföll sem þessi voru ekki óalgeng fyrr á öldum. Þá eru ekki tekin með í reikninginn þau gríðarlegu áhrif sem atburðir eins og Móðuharðindin höfðu á sauðfjárbændur og búskap – þessar vísur gætu auðveldlega átt við um venjulegan vetur á Íslandi fyrir tíma gróðurhúsaáhrifa.

Fengitími og sæðingar

Í seinni hluta nóvember á hverju ári fara kindur að beiða sem er sambærilegt við þegar kettir breima. Fyrir kemur að kindur beiða utan venjulegs fengitíma, en það er blessunarlega fátítt. Miklu algengara er að mislitar kindur beiði utan fengitíma en hvítar.

Hrútarnir eru til í tuskið allan ársins hring, en mest er kynhvöt þeirra þó í skammdeginu. Hrútana verður að taka frá ánum í byrjun nóvember til að þeir gagnist þeim ekki of snemma. Stundum var smápoki festur við kvið hrútanna eða speldi úr horni, leðri eða tré bundið í ullina til að koma í veg fyrir að þeir gengu í ærnar.

Fengitíminn byrjar á flestum bæjum eftir miðjan desember. Kindurnar ganga með lömbin að meðaltali í 143 daga og því byrjar sauðburðurinn víðast hvar rétt fyrir miðjan maí. Áður var einum hrút ætlaðar 40-50 ær, en nú oftast fleiri. Síðustu ár hafa verið gerðar tilraunir til að breyta fengitíma til að svara auknum kröfum markaðarins sem vill fá nýtt og ferskt kjöt allan ársins hring.

Sæðingar

Sæðingar hófust hér á landi árið 1939, mun fyrr en í nágrannalöndum okkar. Ýmislegt gekk á fyrstu árin meðan menn voru að læra á sæðingarnar, en að lokum náðu menn góðum tökum á þeim.

Árið 1956 var opnuð sauðfjársæðingastöð í Laugardælum og nú eru meira en 20.000 ær sæddar á ári hverju. Sæðingarnar eru mjög mikilvægar fyrir ræktunarstarfið því ekki má flytja fé á milli varnarlínanna, en mögulegir sjúkdómar fylgja ekki sæðinu þannig að það er í góðu lagi að flytja það á milli.

Kaflarnir í fróðleikskistunni: