Sauðfjársetur á Ströndum

Safn og menningarmiðstöð á vefnum!

Vor- og sumarverkin

Á vorin er mikið að gerast í sveitinni. Þá stendur sauðburðurinn sem hæst, blómin springa út, grasið grænkar og líf kviknar hvert sem litið er. Þá er mikið að gera hjá bændum við að annast lömb, marka þau og setja kindurnar út og síðan á fjall. Þegar mesta annatímanum í sauðburðinum lýkur er enginn tími fyrir frí. Aldeilis ekki. Þá þarf að bera á túnin, huga að túnræktinni, gera við girðingar, þrífa innan dyra sem utan og undirbúa sumarstörfin. Áður fyrr fór mikill tími í stekktíð og fráfærur, en sú vinna er aflögð í dag.

Eftir mitt sumar fara allir kraftar í að koma heyi í hús með öflugum sláttutækjum sem hafa leyst orf, ljái og hrífur af hólmi. Eftir allt streðið er tilvalið að gera sér glaðan dag með töðugjöldum – helst áður en smalamennskurnar byrja um haustið.

Sauðburður

Sauðburður þykir mörgu sveitafólki vera skemmtilegasti tími ársins. Þá er veturinn á enda, daginn farið að lengja, fuglasöngur í lofti og gróður í miklum vexti. Það að annast kindur í sauðburði er verk sem hefur breyst mjög lítið í gegnum tíðina.

Sauðburður hefst yfirleitt fyrrihluta maí, en ærnar ganga með lömbin í 143 daga, stundum 2 dögum lengur eða skemur.

Frjósemi ánna fer mikið eftir því hve vel er að þeim búið yfir veturinn. Sé illa fóðrað að haustinu og ærnar leggja mikið af fram á fengitíma þá er hætta á að margar þeirra verði einlembdar. Það er sjaldgæft í dag þar sem nútímabændur eiga yfirleitt alltaf nóg af heyi. Frjósemi Strandakinda hefur ætíð verið góð, en fyrr á öldum var til þess tekið hve frjósemi var betri á bæjum þar sem fjörubeit var góð.

Að mörgu er að hyggja í sauðburði og mikil vinna fylgir honum. Megnið af heimilisfólkinu þarf að bregða sér í ljósmóðurhlutverkið þegar þannig ber undir og vaka þarf yfir kindunum allan sólarhringinn.

Margs konar erfiðleikar geta komið upp við burðinn. Ef allt er eðlilegt kemur höfuðið og báðir framfæturnir fyrst, en stundum eru lömbin svo stór að hjálpa verður kindinni. Það er varasamt þegar lömbin snúa öfugt og afturfæturnir koma fyrst. Þá er hætta á að lambið kafni. Stundum liggja framfæturnir aftur með skrokknum og þá kemst aðeins hausinn út en herðakamburinn situr fastur.

Strax eftir burðinn sleikir kindin lambið þar til það er orðið þurrt, það heitir að kara lambið. Síðan þarf lambið að komast á spena sem fyrst eftir að það fæðist.

Lambakóngur og lambadrottning

Fyrstu lömbin sem fæðast á hverjum bæ á vorin eru kölluð lambakóngur og lambadrottning.

Áður fyrr þegar lítið sem ekkert var um girðingar var fénu sleppt lausu fyrir sauðburðinn og kindurnar báru úti. Í dag eru ærnar yfirleitt látnar bera inni í fjárhúsum.

Lamb vanið undir á

Í ferðabók Eggerts og Bjarna frá miðri 18. öld er því lýst hvernig lamb er vanið undir kind. Þá er tekinn tvílembingur og lokaður inni með á sem misst hefur lamb og venja á undir. Segja þeir mikilvægt að hafa kindina: … í dimmri kró og tekur ærin þá lambið. Heppnist þetta ekki er skinnið af dauða lambinu saumað utan um hitt og lætur ærin þá gabbast af lyktinni. Ef þetta dugar ekki heldur er haldið í ána á meðan lambið sýgur.

Í dag er frjósemi áa talsvert meiri en á tímum Eggerts og Bjarna og því er það býsna algengt að lömb séu vanin undir. Tvílembingar eru yfirleitt ekki teknir til undirvönunar, nema að eitthvað bjáti að hjá ánni, hún mjólki ekki eða sé veik. Þær kindur sem ekki vilja taka strax við lambinu eru stundum bundnar þangað til þær eru orðnar vanar því og enn tíðkast sums staðar að sauma skinn af dauðu lambi utan um það sem venja á undir til að gabba kindurnar.

Fjármörk

Mórauður, með mikinn lagð,
mænir yfir sauðakrans;
hófur, netnál, biti, bragð
á báðum eyrum mark er hans.
[Þjóðsögur Jóns Árnasonar II, bls. 267]

Fjármörk hafa verið notuð hér á landi frá upphafi byggðar. Markmiðið með þeim er að komast hjá erjum vegna eignarréttar og að auðvelda bændum að þekkja kindurnar sínar þegar þær koma af fjalli. Aðferðirnar sem notaðar hafa verið til að marka fé eru nokkrar:

Eyrnamörkin bárust til landsins með landnámsmönnum og hafa haldist hér síðan. Lömbin eru mörkuð þegar þau eru nokkurra daga gömul. Fyrrum var það gert með beittum hníf en í dag eru notaðar sérstakar markatangir.

Í dag er skylda að setja einnig plast- eða álplötur með númeri lambanna og bæjar- og sveitarnúmeri í eyrun.

Brennimörk eru sett á hornin á kindunum. Þessi mörk eru rétthærri en eyrnamörkin og farið er eftir þeim þegar réttað er.Hornamörk voru stundum tálguð í hornin áður fyrr, þegar erfitt var að marka fé upp.

Sumstaðar tíðkaðist að skrúðdraga eða spottadraga féð til að þekkja það. Þá var ullarband með þremur litum fléttað saman og dregið í gegnum eyrað.

Skipulag og eftirlit með mörkum er í föstum skorðum í dag. Í hverri sýslu eru markaverðir sem gefa út markaskrár og útbýta mörkum til þeirra sem sækja um þau. Samkvæmt markaskrá 1997 eru í gildi í landinu 17.000 mörk, en líklega eru mörg þeirra lítið notuð.

Í dag er mikið lagt upp úr því að fjármörk séu ekki of gróf, m.a. er unnið gegn notkun nokkurra marka í markaskránni.

Áburður

Bera þarf áburð á túnin um leið og tún og gróður vakna af vetrardvala. Ef það dregst verður grassprettan lélegri. Þegar áburðinum hefur verið dreift brotnar hann smám saman niður í jarðveginn og sér grasinu fyrir nauðsynlegum efnum til að vaxa hraðar. Áburðurinn er þannig einskonar fæðubótarefni fyrir grasið. Í dag er tilbúnum áburði yfirleitt dreift á túnin fljótlega eftir að kindur fara til fjalls með lömbum sínum, en áður fyrr var ætíð notast við kindaskít til áburðar.

Árni Daníelsson í Tröllatungu að slóðadraga

Húsdýraáburður

Það var eitt af vorverkunum að stinga út úr fjárhúsunum. Páll var notaður til að stinga taðið í hnausa og reka eða gaffall til að bera hnausana út.

Skíturinn var mulinn niður í túnin með fótunum eða verkfæri sem kallaðist klára. Þar lá hann uns gras fór að spretta. Það sem þá var eftir af áburði kallaðist afrak. Því var rakað saman með hrífum, borið heim að bæ í trogum og nýtt til eldiviðar.

Það létti mönnum töluvert störfin þegar taðkvörnin var fundin upp, en hún muldi taðið.

Á seinni árum eru notaðir dreifarar eða haugsugur til að koma kindaskítnum á túnin, annað hvort að vori áður en gras fer að spretta en einnig oft á haustin, eftir að búið er að slá. Dreifararnir og sugurnar eru víðast hvar notuð, en einnig er mögulegt að nota svokallað niðurfellingartæki. Það sprautar skítnum ofan í jörðina þannig að ekkert fer til ónýtis. Bændur á Ströndum eru meðal þeirra sem hafa verið að prófa slíkt tæki undanfarin misseri.

Tilbúinn áburður

Um miðja síðustu öld voru fluttir inn sérstakir dreifarar til að bera tilbúinn áburð á túnin. Nokkru fyrr höfðu menn byrjað að nota innfluttan áburð, mest var notað af svokölluðum Noregs-saltpétri.

Tilbúni áburðurinn hefur reynst bændum vel og á stóran þátt í því að heyöflun er ekki vandamál í dag. Áburðarverksmiðjan í Gufunesi framleiðir ótal tegundir af áburði sem hentar fyrir allan jarðveg, auk þess sem mikið er notað af innfluttum áburði.

Túnrækt og jarðvinnsla

Menn hugðu ekki mikið að túnrækt áður fyrr. Tún voru mjög lítil og lítið var reynt að rækta þau, enda var enginn áburður annar en skíturinn og taðið undan dýrunum.

Menn treystu helst á það að heyja á engjum, en engjar eru óræktuð slægjulönd í úthaga. Á fyrri tímum stóðu bannsettar þúfurnar þeim bændum sem vildu eignast góð tún fyrir þrifum. Sléttun túnanna var nauðsynleg, því þúfurnar töfðu fyrir heyskap og sumir kusu að slá ekki þar sem kargaþýfi var.

Menn reyndu að skera þúfurnar með torfljá eða stálrekum en það var ekki mjög árangursríkt. Ofanristuspaðinn létti mörgum verkið þegar hann kom til sögunnar. Allar jarðabætur voru tímafrekar áður en plógar komu til sögunnar. Þá varð bylting í allri jarðvinnslu og önnur bylting varð þegar dráttarvélarnar fóru að leggja hönd á plóginn.

Tímarnir breyttust og jarðvinnslan með. Farið var að nota plóga og mikilvægi framræslu, þ.e. að gera skurði til að þurrka upp votlendi, varð mönnum ljós. Hestar voru lengi vel notaðir til þessara verka, en um miðja síðustu öld tóku dráttarvélarnar völdin. Vélabyltingin auðveldaði bændum túnræktina. Jarðvinnslan varð leikur einn þegar plógar og herfi sem brutu upp landið voru fluttir til landsins í stórum stíl. Valtarar og hinir risavöxnu og stórvirku þúfnabanar sem náðu þó ekki mikilli fótfestu voru nýjungar sem komu sér vel þegar slétta átti flagið. Lúnir vinnuhestar á friðsælum sveitabæjum hafa eflaust varpað öndinni léttar þegar ferlíkin leystu þau af. Jarðvinnsla í sveitum landsins hefur farið minnkandi á síðustu áratugum. Skýringin er sú að víðast hvar eru menn búnir að rækta upp þau tún sem nægja þeim og bændum framtíðarinnar til heyöflunar.  

Fráfærur

Gimbillinn mælti
og grét við stekkinn:
“Nú er hún móðir mín
mjólkuð heima.
Því ber ég svangan
um sumardag langan
munn minn og maga
á mosaþúfu.

Áður fyrr voru allar afurðir kindarinnar nýttar til hins ýtrasta. Fráfærur voru stór hluti af því að nýta afurðirnar til fulls.

Fráfærur tíðkuðust fram á 20. öldina. Þær hófust á svokallaðri stekktíð snemma í júní. Þá gengu ærnar lausar ásamt lömbum sínum yfir daginn. Seint um kvöldið rak smalinn þær heim í stekkinn sem var lítil fjárrétt. Á stekknum var lítil hliðarkró sem var kölluð lambakró. Þangað voru lömbin sett og látin vera yfir nóttina meðan ærnar voru á beit. Næsta morgun voru ærnar mjólkaðar í stekknum og að því loknu var þeim og lömbunum aftur hleypt á beit.

Þegar lömbin voru um sex vikna gömul var fært frá. Þá voru lömbin rekin til fjalls sumarlangt en kindunum haldið heima, þær reknar heim og mjólkaðar kvölds og morgna.

Þessar kindur voru kallaðar kvíaær því þær voru mjólkaðar í kvíum sem voru mjóar og langar réttir. Einnig voru til færikvíar sem voru færanlegar eins og nafnið gefur til kynna.

Yfir sumarið sat smalinn yfir kvíaánum og rak þær heim þegar komið var að mjöltum. Stundum sat smalinn yfir bæði nótt og dag, en sumstaðar bara á daginn – þá léku ærnar lausum dindli á nóttunni og smalinn náði í þær um morguninn. Sumstaðar var kindunum sleppt eftir mjaltir, en þá þurfti að smala þeim heim kvölds og morgna.

Girðingarvinna

Á þjóðveldisöld var mikil áhersla lögð á hleðslu túngarða, en á 15. og 16. öld lagðist slíkt að miklu leyti niður. Mátti heita að engar girðingar væru hér fram á 19. öld. Þá hlóðu menn mikið af grjót- og torfgirðingum.

Byrjað var að flytja inn gaddavír um aldamótin 1900 og Gaddavírslögin voru samþykkt af Alþingi 1903. Guðjón Guðlaugsson bóndi og alþingismaður Strandamanna var einn af flutningsmönnum gaddavírslaganna, en hann var búsettur á Ljúfustöðum í Kollafirði og víðar á Ströndum. Næstu árin á eftir jókst gaddavírsnotkunin gríðarlega mikið og fyrir 1920 voru mun fleiri gaddavírsgirðingar, en úr torfi og grjóti. Gaddavírslögin áttu að stuðla að framgangi og útbreiðslu gaddavírsins, en samkvæmt þeim var bændum lánað girðingarefni á hagkvæmum kjörum, sem var hvatning til að girða túnin.

Sumir lögðust þó alfarið á móti gaddavírnum, sennilega sökum þess að hann á það til að vera hættulegur fyrir kindurnar og aðrar skepnur, en einnig er líklegt að einhverjir hafi verið að hugsa um efniskostnaðinn sem var ólíkt meiri en í grjótgirðingunum.

Gaddavírsgirðingar eru enn í fullu gildi í dag og eru nauðsynlegar til að halda sauðfé á ákveðnu svæði eða túnskika. Oft fer talsverður tími í að dytta að girðingunum yfir sumarið því staurar vilja brotna undan snjóþunga og vírinn slitnar gjarnan af sömu ástæðu.

Heyskapur

Áður en tæknibyltingin gekk í garð voru amboðin sem brúkuð voru í slættinum orf, ljár og hrífur. Víða var sú trú að menn ættu að byrja slátt á föstudegi eða laugardegi ef menn vildu heyja vel.

Dagslátta fyrir hvern fullgildan sláttumann var spilda sem var 30 faðmar á hverja hlið. Mátti helmingurinn vera þýfður en hitt átti að vera slétt. Menn slógu í spildum og gat þá borið við að einhver yrði á eftir hinum sláttumönnunum. Slógu þeir þá saman sínar spildur fyrir framan skussann og hólmuðu hann af. Kallaðist hann þá hólmaskítur.

Konur höfðu það starf að raka á eftir piltunum. Ekki var þeim vel við að þær væru mjög nærri þeim í slægjunni. Þetta olli talsverðri keppni því ef þær gátu rakað heyið næstum því af ljánum hjá sláttumönnunum þá kölluðu þær það að skeina um rassinn á þeim eða gelda þá.

Meðan verið var að þurrka heyið var því snúið eða rifjað í rifgörðum. Þegar það var orðið þurrt var því rakað saman í flekki, bundið í sátur og flutt heim á hestum. Hey var sett í tóftir við húsin norðanland en í heygarða sunnanlands.

Í dag hafa vélar leyst orf, ljá og hrífur af hólmi. Á síðari árum hafa það verið dráttarvélar, sláttutætarar, JF-vagnar, sláttuvélar, múgavélar, tætlur og bindivélar sem vinna verkin í slættinum.

Strandamenn snéru á veðurguðina á 20. öldinni og fóru að verka allt hey í vothey og slógu með sláttutætara. Eftir að farið var að nota rúllubagga er líka eru menn mun óháðari veðrinu en þegar allt var verkað í þurrhey.

Þjóðtrú um heyskap

Ekki mega menn ganga frá óbrýndum ljá í orfi því þá kemur kölski og skítur á eggina. Ef það gerist verður ljárinn bitlaus.

Fyrsti sunnudagur í sumri er merkisdagur fyrir túnsláttinn. Trú manna er að það viðri eins á öllum túnslættinum og á þessum fyrsta sunnudegi.

Töðugjöld

Mismunandi var eftir landshlutum hversu mikið var lagt í töðugjöldin. Sums staðar var fé slátrað og víða var brennivín með kaffinu. Þessi eldgamla kersknisvísa er um töðugjöld á Felli í Kollafirði:

Flott er lifað á Felli
fyrðar lögðu að velli
eina gráa gamalá
átu hana upp úr skinni
í túnsláttar minni
þó var enginn sæll að sjá.

Töðugjöld og slægjur er hafðar í lok sláttar. Slægjur voru haldnar hátíðlegar þegar engjaheyskap var lokið, nálægt miðjum september. Töðugjöldin voru hins vegar haldin um það bil mánuði fyrr, þegar búið er að hirða hey af túnum.

Slægjur eru þekktar frá fornu fari, þá var kind oft slátrað til veislunnar. Slægjur héldust fram á 20. öldina og töðugjöld voru alþekkt um allt land fram á miðja 20. öldina, en hafa nú látið undan síga vegna breyttra búskaparhátta.

Í bæði skiptin var gerður dagamunur með því að veita vinnufólki vel í mat og drykk. Fyrstu heimildir um töðugjöld eru frá því um 1800 en þá var túnrækt farin að aukast verulega.

Kaflarnir í fróðleikskistunni: